Kynning á mér :)


Kæra unga framsóknarfólk

Ég heiti Ragnar Stefán og ég býð mig fram til formanns SUF. Ég er 27 ára gamall og er uppalinn á Skagaströnd en undanfarin ár hef ég búið á Sauðárkróki. Ég er nýfluttur til Reykjavíkur þar sem ég stunda nú kokkanám.

Ég hef starfað innan Framsóknarflokksins frá árinu 2009. Á þeim tíma hef ég gegnt ýmsum störfum fyrir flokkinn. Sem dæmi má nefna var ég kosningastjóri Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosningunum í Skagafirði vorið 2010 þar sem Framsókn vann stórsigur. Einnig hef ég setið í trúnaðarráði Framsóknarfélags Skagafjarðar og á nú sæti í miðstjórn flokksins. Á síðasta fundi miðstjórnar var ég kosinn í málefnanefnd flokksins og er eini ungliðinn þar. Það starf sem ég hef gegnt einna lengst og stendur hjarta mínu næst er formennska fyrir 300 manna ungliðahreyfingu FUF í Skagafirði.

Ég hef óbilandi trú á okkur unga fólkinu, rödd okkar þarf að heyrast hærra en nokkru sinni fyrr. Við lifum á spennandi tímum og tækifærin bíða okkar allsstaðar. Við unga fólkið þurfa að grípa tækifærin og móta okkar eigin framtíð sjálf.

Mörg brýn verkefni bíða SUF. Mjög mikilvægt er að efla FUF félögin um land allt og vekja áhuga ungs fólks á pólitísku starfi í samfélaginu. Ég tel einnig mikilvægt að efla samskipti SUF við FUF félögin. Nái ég kjöri verður það eitt af mínum fyrstu verkefnum, í samstarfi við FUF félögin um land allt, að gera áætlun um eflingu félaganna til framtíðar.
Evrópumálin eru mér einnig hugstæð, en afstaða mín er skýr. Ég tel að það eigi að fresta aðildarviðræðum til betri tíma og endurskoða málið þegar Ísland er betur statt og getur sótt um aðild í krafti styrkleika okkar en ekki veikleika.
Önnur þau mál sem ég mun beita mér fyrir eru atvinnumál og jafnréttismál í víðum skilningi. Atvinnumálastefna Framsóknarflokksins ætti að mínu mati að höfða til ungs fólks í dag. Íslandi hefur vegnað vel þegar Framsóknarflokkurinn hefur verið leiðandi í atvinnuuppbyggingu um land allt.
SUF á einnig að vera leiðandi í umræðu um jafnréttismál, enda er það okkar kynslóð sem tekur við atvinnumarkaðinum og við þurfum því að vera meðvituð um mikilvægi þess að kjör allra séu sem jöfnust.

Þessum málum ásamt öðrum mun ég beita mér fyrir nái ég kjöri
Ég er spenntur fyrir þeim tímum sem framundan eru og tel mig vera vel því starfi vaxinn að vera í forsvari ungs framsóknarfólks af öllu landinu, færi svo að mér yrði treyst fyrir þeirri miklu ábyrgð.

Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest á sambandsþingi SUF á Egilsstöðum
Bestu kveðjur

Ragnar Stefán Rögnvaldsson
formaður ungra framsóknarmanna í Skagafirði



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll; Ragnar Stefán, jafnan !

Ég hygg; að þú getir náð góðu gengi, með því að krefjast brottrekstrarar : Halldórs Ásgrímssonar - Valgerðar Sverrisdóttur og Finns Ingólfssonar, úr flokki þínum.

Jafnframt; skora ég á þig, að beita öllum mætti þínum - og annarra ungliða; þér hliðhollum, gegn fáræðis- og undirferlis klíku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, ekki síður.

Þá; mun ykkur vel farnast, ágæti drengur.

Með beztu kveðjum úr Árnesþingi; norður yfir heiðar /  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.2.2012 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband