Um veiðileyfagjald


Frumvarp til laga um veiðigjöld hefur að markmiði að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar. Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns.

Það er augljóst að frumvarpið með breytingartillögum gengur þvert gegn markmiðum þess um „að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Í stefnu Framsóknarflokksins stendur um veiðigjald: Lagt er til að á nýtingarsamninga í potti eitt verði lagt árlegt veiðigjald, þ.e. svokölluð auðlindarenta. Veiðigjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar. Bent hefur verið á að mikilvægt sé að skilgreina hvað auðlindir séu, hverjar séu í eigu ríkis og hverjar falli undir hið óskilgreinda hugtak „sameign þjóðarinnar“. Jafnframt hefur verið bent á mikilvægi þess að jafnræði um gjaldtöku sé milli atvinnugreina. Mikilvægt er að hluti auðlindarentunnar renni til greinarinnar sjálfrar til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstarfa. Einnig er nauðsynlegt að nýir aðilar geti sótt um styrk til nýsköpunar og rannsókna til að auðga þekkingu og nýtingu á auðlindinni. Þá er lagt til að hluti gjaldsins renni aftur til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til, einkum til mótvægis því að annars mætti halda því fram að um væri að ræða viðbótar skattlagningu, sérstaklega á landsbyggðinni. Hluti af auðlindarentunni rynni síðan í ríkissjóð.

Markmiðum frumvarpsins hefði verið náð betur með því að fylgja stefnu Framsóknarmanna. Sérstaklega er bent á áherslu á nýsköpun og þróun og tillögur um að umtalsverður hluti veiðigjaldsins renni aftur til þess svæðis þar sem auðlindarentan verður til.

Athugasemdir við hugmyndir frumvarpsins um veiðigjald.

a) Álagningin er umfangsmikil. Hún mun í fyrstu verða 60% af metinni auðlindarentu og hækka í þrepum upp í 70%. Ljóst er að verulegur hluti auðlindarentu af veiðum hefur þegar eigngerst og horfið út úr sjávarútvegi í viðskiptum með aflahlutdeild, eins og áður var nefnt. Rentan sem veiðarnar skapa hefur þannig runnið til fyrri eigenda aflaheimildanna. Ljóst er að þær útgerðir sem eru skuldsettar vegna kaupa á aflaheimildum munu eiga mjög erfitt uppdráttar við þessa breytingu.

b) Frumvarpið gerir ráð fyrir því að meta rentu veiða og vinnslu saman og leggja veiðigjald á veiðarnar sem hlutfall af þessari heildarrentu. Ætla má að þetta sé gert til þess að takast á við vandamál tengd tekjuskráningu samþættra útgerðar- og vinnslufyrirtækja. Hér þarf þó að staldra við og velta fyrir sér hvort eðlilegt sé að gera ráð fyrir að engin umframhagnaður (þ.e. renta) verði til í fiskvinnslu. Ljóst er að umframhagnaður getur orðið til af fleiri ástæðum en vegna sjávarauðlindarinnar. Vinnslufyrirtæki geta byggt upp orðspor á markaði eða búið yfir eftirsóknarverðri afkastagetu til skemmri tíma sem skapar umframhagnað, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig þarf að taka tillit til þess að fiskvinnsla er áhætturekstur sem býr við miklar hráefnissveiflur. Ávöxtunarkrafa í slíkum rekstri er eðlilega mun hærri en í áhættuminni rekstri. Það getur því reynst erfitt að skilja á milli eðlilegs hagnaðar og umframhagnaðar ef ekki er vitað hver eðlileg ávöxtunarkrafa er.

c) Kemur þá að þriðja atriðinu sem snýr að ákvörðun reiknaðrar ávöxtunar á verðmæti rekstrarfjármuna, eins og segir í frumvarpinu, þar sem kalla mætti hlutdeild fjármagns í rekstrarkostnaði. Ákvörðun hlutdeildar fjármagns er lykilatriði við mat á rentu. Annars vegar byggir hún á mati á vegnum fjármagnskostnaði og hins vegar verðmæti rekstrarfjármuna. Veginn fjármagnskostnaður er fastsettur í frumvarpinu, 8% fyrir veiðar og 10% fyrir vinnslu. Mjög mikilvægt er að veginn fjármagnskostnaður sé rétt skilgreindur og taki að fullu tillit til atriða eins og lánskjara, rekstraráhættu og seljanleika eigna. Þess má sjá glögg dæmi raforkulögum að löggjafinn gerir sér grein fyrir þessu, þar sem sérfræðinganefnd er falið að ákvarða veginn fjármagnskostnað í dreifingu rafmagns. Ef veginn fjármagnskostnaður er fastsettur í lögum er mikilvægt að hann sé ekki vanáætlaður. Verðmæti rekstrarfjármuna skal samkvæmt frumvarpinu byggja á vátryggingaverðmæti skipa að viðbættum 20% og bókfærðu virði annarra eigna, án afskrifta. Rétt er að benda á að meðan vátryggingaverðmæti fylgir að einhverju leyti verðlagi gerir bókfært virði það ekki. Það skýtur mjög skökku við mismuna eignum með þessum hætti og eðlilegra verður að teljast að aðrar eignir séu uppfærðar með vísitölubreytingum til samræmis.

d) Frumvarpið gerir ráð fyrir að sértækt veiðigjald leggist einungis á ef afkoma eftir reiknaða ávöxtun á verðmæti rekstrarfjármuna og almennt veiðigjald er jákvæð. Rétt er að benda á að ef renta verður einhvern tímann neikvæð mun meðalskattlagning rentu fara upp fyrir þau 70% sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Í sveiflukenndum veiðum, eins og uppsjávarveiðum, getur þetta leitt til þess að mun hærra hlutfall en 70% sé tekið að meðaltali. Í þeim löndum þar sem renta er skattlögð er jafnan tekið tillit til þessa með því að leyfa frádrátt neikvæðrar rentu síðasta árs frá rentu núverandi árs.

e) Frumvarpið gerir ráð fyrir frítekjumarki fyrir minni útgerðir, en afkoma þeirra er að jafnaði lakari en stærri útgerða. Niðurgreiðsla óhagkvæmrar atvinnustarfsemi skapar hvata til að viðhalda eða auka umfang hennar og bjagar hvata til eðlilegrar hagræðingar í útgerð. Færa þarf fyrir því sannfærandi rök að ávinningur þessa sé meiri en tilkostnaðurinn. Á hinn bóginn skal viðurkennt að staða útgerða í smábátaútgerð er mun veikari en útgerðarfyrirtækja sem fyrst og fremst gera út stærri báta, eins og glögglega má sjá á skýrslu sérfræðingahópsins vegna fyrra frumvarps. Ljóst er að frítekjumarkið mun létta mjög undir með minni útgerðum að takast á við boðaðar hækkanir veiðigjalds.

f) Að lokum er rétt að benda á að renta í útgerð skiptist milli útgerðar og sjómanna, eins og fram hefur komið í fjölda rannsókna. Umfangsmikil skattlagning rentu mun lækka laun sjómanna til lengri tíma litið. Einnig hafa rannsóknir sýnt að samhengi er milli umfangs rentu og umgengni við auðlindir annars vegar og hvatans til leita nýrra nytjategunda hins vegar. Umfangsmikil skattlagning rentu í sjávarútvegi mun draga úr þessum hvötum. Mikilvægt er að tekið sé tillit til þessa kostnaðar þegar kostnaður og ábati gjaldtöku er metinn.

Rétt að undirstrika að samræmi þarf að vera milli gjaldtöku annarra ákvæða frumvarpsins sem breyta rekstrarskilyrðum og skerða afkomu útgerðarfyrirtækja. Ef vegið er að möguleikum til hagræðingar og langtímahagkvæmni útgerðarinnar mun það skerða umfang auðlindarentunnar og draga úr getu útgerðarinnar til að standa undir gjaldtökunni. Dæmi um íþyngjandi ákvæði frumvarpsins sem koma til viðbótar hækkun veiðigjalda er takmörkuð tímalengd nýtingarleyfa, stækkun potta, takmarkanir á viðskiptum með aflamark og skattlagning viðskipta með aflahlutdeildir.“

Umsagnir.

Grindavíkurbær segir að helstu beinu áhrifin af frumvarpi til laga um veiðigjöld verði að grunnveiðigjald og sérstakt veiðigjald í Grindavík á síðasta ári hefði numið yfir 2.000 millj. kr., en árið 2011 var eitt hið besta á þessari öld. Til samanburðar má nefna að skatttekjur Grindavíkurbæjar (útsvar og fasteignaskattar) á árinu 2011 námu rúmlega 1.100 millj. kr. Auðlindarenta á fyrirtæki í Grindavík hefði numið rúmlega tvöfaldri þeirri fjárhæð, sem hefði runnið að fullu í ríkissjóð. Búast má við að stóraukin gjaldheimta af sjávarútvegsfélögunum leiði til þess að fyrirtækin reyni að draga úr kostnaði annars staðar, m.a. með því að endursemja við sjómenn og annað starfsfólk, fækka stöðugildum og draga úr þjónustukaupum. Lækkun á launakostnaði fyrirtækjanna og minnkandi þjónustukaup munu skila sér í enn frekari lækkun útsvarsstofns Grindavíkurbæjar og samdrætti í tekjum hafnarinnar. Það er mat Grindavíkurbæjar að ef frumvarpið verði að lögum sé ljóst að áhrifin verði verulega neikvæð á samfélagið í Grindavík og á Suðurnesjum öllum og mun að öllu óbreyttu valda því að íbúum á svæðinu fækkar. Það er ekki á samfélagið á Suðurnesjum leggjandi. Áhrifin munu jafnframt koma fram á öðrum svæðum, en fyrirtækin í Grindavík sækja starfsfólk, og þá ekki síst sjómenn, um land allt.

Fjarðabyggð segir að ef frumvarp þetta verður samþykkt muni það hafa mikil áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja í Fjarðabyggð. Fyrir liggur að svigrúm fyrirtækja til fjárfestinga mun verða mun minna sem um leið hefur áhrif í samfélaginu þar sem stórir og smáir þjónustuaðilar byggja rekstur sinn á ýmiss konar þjónustu við greinina. Skattheimta eins og boðuð er í frumvörpunum er gríðarleg færsla á fjármunum frá samfélaginu á Austfjörðum í ríkissjóð og lætur nærri að hún nálgist 4 milljarða kr.

Vestmannaeyjabær segir að gjaldið sé landsbyggðarskattur sem kallaður hafi verið auðlindagjald og sé fáheyrt hár. Boðað auðlindagjald hefði verið um 5 milljarðar kr. fyrir atvinnulífið í Vestmanneyjum árið 2010 af 24 milljörðum kr. fyrir allt landið. Það gerir sértæka gjaldheimtu upp á tæplega 1,2 millj. kr. á hvern íbúa Vestmanneyja einungis það ár. Slíkur skattur ofan á allt annað sem íbúar Eyja greiða til jafns við aðra er fáheyrður. Ósanngjarnt og óréttlátt er að leiða gríðarlega skattheimtu yfir landsbyggðina þegar loks sjást merki um hagvöxt. Endurnýjun og nýsköpun takmarkast með skattlagningu þessari.

Hreppsnefnd Vopnafjarðar varar Alþingi sterklega við í umsögn sinni að samþykkja frumvarpið og vísar máli sínu til stuðnings í greinargerðir sérfræðinga sem m.a. fylgja frumvörpunum sjálfum.

Snæfellsbær segir að samkvæmt greiningu Deloitte á afleiðingum frumvarpsins er talið að veiðigjaldið af fyrirtækjum í Snæfellsbæ verði 817 millj. kr. á ári, en þess má geta að útsvar Snæfellsbæjar árið 2010 er 625 millj. kr. Af 24 útgerðarfélögum sem litið var á í úrtaki Deloitte kemur í ljós að um 17 geta mögulega ekki staðið við núverandi greiðsluskuldbindingar sínar verði frumvarpið samþykkt óbreytt. Hjá þessum félögum starfa um 204 og greiddu þau 2,4 milljarða kr. í laun til starfsmanna sem greiða útsvar til bæjarins upp á 193 milljarða kr. sem mundi hverfa og þýða greiðsluþrot bæjarins á stuttum tíma.

Að lokum.

Hugmyndir um að taka marga milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli mjög varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar. Ekkert eitt mál er afdrifaríkara fyrir framtíð byggðakeðjunnar hringinn í kringum landið.

Sjávarútvegurinn keppir við ríkisstyrkta grein í nálægum löndum. Sjávarútvegur á Íslandi hefur algera sérstöðu að þessu leyti í Norðurálfu, ásamt e.t.v. Færeyjum. Hann verður að standa algerlega undir sjálfum sér og auk þess lífskjörum heillar þjóðar. Þetta þarf hann að gera í samkeppni við ríkisstyrki í nálægum löndum og að ætla honum auk þess að standa undir sérstöku veiðigjaldi, býr greininni fantaleg samkeppnisskilyrði, vægast sagt.

Öflug sjávarútvegsfyrirtæki með góða afkomu til fjárfestinga eru helsta von landsbyggðarinnar. Það ætti að nægja til að vera algjörlega andvígur veiðigjaldi. Ekki verður séð eitthvað annað, sem hugsanlega getur bjargað byggðinni á fjölmörgum svæðum í landinu, en þá von að sjávarútvegsfyrirtækin eflist og geti boðið upp á vel launuð störf og ráðið til sín háskólamenntað fólk og keppt við þá möguleika sem annars staðar er boðið upp á í landinu. Veiðigjald yrði áfall fyrir landsbyggðina í margföldum skilningi.

Sjávarútvegurinn yrði síðri fjárfestingakostur með veiðigjaldi. Það yrðu minni líkur á arði og það sem mestu máli skiptir hér eru fælingaráhrifin. Það vita það allir, sem eitthvað vita, að sú hætta vakir í öllum málum af þessu tagi að þegar einu sinni er komið á gjald þá vill það hækka. Enginn skattstofn á byggðu bóli, hvorki á norður- né suðurhveli jarðar, hefur ekki haft tilhneigingu til að hækka þegar hann er einu sinni kominn á. Auðvitað myndu fjárfestar sjá þetta gjald sem áhættuþátt; þarna væri kominn skattstofn sem stjórnvöld gætu á þrengingartímum í ríkisfjármálum gripið til þess að hækka. Þetta mun fæla fjármagn frá greininni.

Ragnar S Rögnvaldsson

Varaformaður Sambands ungra Framsóknarmanna


Kynning á mér :)


Kæra unga framsóknarfólk

Ég heiti Ragnar Stefán og ég býð mig fram til formanns SUF. Ég er 27 ára gamall og er uppalinn á Skagaströnd en undanfarin ár hef ég búið á Sauðárkróki. Ég er nýfluttur til Reykjavíkur þar sem ég stunda nú kokkanám.

Ég hef starfað innan Framsóknarflokksins frá árinu 2009. Á þeim tíma hef ég gegnt ýmsum störfum fyrir flokkinn. Sem dæmi má nefna var ég kosningastjóri Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosningunum í Skagafirði vorið 2010 þar sem Framsókn vann stórsigur. Einnig hef ég setið í trúnaðarráði Framsóknarfélags Skagafjarðar og á nú sæti í miðstjórn flokksins. Á síðasta fundi miðstjórnar var ég kosinn í málefnanefnd flokksins og er eini ungliðinn þar. Það starf sem ég hef gegnt einna lengst og stendur hjarta mínu næst er formennska fyrir 300 manna ungliðahreyfingu FUF í Skagafirði.

Ég hef óbilandi trú á okkur unga fólkinu, rödd okkar þarf að heyrast hærra en nokkru sinni fyrr. Við lifum á spennandi tímum og tækifærin bíða okkar allsstaðar. Við unga fólkið þurfa að grípa tækifærin og móta okkar eigin framtíð sjálf.

Mörg brýn verkefni bíða SUF. Mjög mikilvægt er að efla FUF félögin um land allt og vekja áhuga ungs fólks á pólitísku starfi í samfélaginu. Ég tel einnig mikilvægt að efla samskipti SUF við FUF félögin. Nái ég kjöri verður það eitt af mínum fyrstu verkefnum, í samstarfi við FUF félögin um land allt, að gera áætlun um eflingu félaganna til framtíðar.
Evrópumálin eru mér einnig hugstæð, en afstaða mín er skýr. Ég tel að það eigi að fresta aðildarviðræðum til betri tíma og endurskoða málið þegar Ísland er betur statt og getur sótt um aðild í krafti styrkleika okkar en ekki veikleika.
Önnur þau mál sem ég mun beita mér fyrir eru atvinnumál og jafnréttismál í víðum skilningi. Atvinnumálastefna Framsóknarflokksins ætti að mínu mati að höfða til ungs fólks í dag. Íslandi hefur vegnað vel þegar Framsóknarflokkurinn hefur verið leiðandi í atvinnuuppbyggingu um land allt.
SUF á einnig að vera leiðandi í umræðu um jafnréttismál, enda er það okkar kynslóð sem tekur við atvinnumarkaðinum og við þurfum því að vera meðvituð um mikilvægi þess að kjör allra séu sem jöfnust.

Þessum málum ásamt öðrum mun ég beita mér fyrir nái ég kjöri
Ég er spenntur fyrir þeim tímum sem framundan eru og tel mig vera vel því starfi vaxinn að vera í forsvari ungs framsóknarfólks af öllu landinu, færi svo að mér yrði treyst fyrir þeirri miklu ábyrgð.

Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest á sambandsþingi SUF á Egilsstöðum
Bestu kveðjur

Ragnar Stefán Rögnvaldsson
formaður ungra framsóknarmanna í Skagafirði



Plan B

www.planb.is endilega að skoða þetta. Framsókn talar í lausnum!

Framboð!

Nú er kominn sá tími að ég tel best fyrir framtíð Sambands ungra framsóknarmanna að nýju blóði verði hleypt í starfið. Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér til formensku í SUF.
Ég tel að undanfarin ár hafi starf SUF verið langt frá því að vera eins öflugt og það þarf að vera.

Þessu þarf að breyta. Undanfarið hefur SUF ekki verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni, en ég tel að skoðanir ungra framsóknarmanna hafi aldrei átt meiri samleið með þjóðinni en einmitt nú. SUF þarf að vera sterkur vettvangur sem ungt fólk vill taka þátt í.
Til þess þarf bæði að styrkja innra starf sambandsins og stórauka starfið út á við. Eitt aðalmarkmið mitt er að ungir framsóknarmenn geti sameinast og verið stoltir af að taka þátt í öflugu starfi SUF.

Ragnar S. Rögnvaldsson
formaður
Félags ungra Framsóknarmanna í Skagafirði


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband